Aldraðir á Íslandi

Úr rannsóknum á aðstæðum aldraðra   

Stofnanavæðing

Á undanförnum áratugum hafa orðið miklar framfarir í læknavísindum og bætt þjónusta heilbrigðiskerfisins hefur leitt til þess að öldruðum einstaklingum hefur fjölgað mikið. Miklar breytingar hafa orðið á samfélagi okkar og fjölskyldumynstri. Sjaldgæft er að fleiri en tvær kynslóðir búi saman eins og algengt var á arum áður og segja má að kynslóðirnar hafi ekki lengur sömu þörf hvort fyrir aðra. Stofnanir, svo sem leikskólar og davalarheimili hafa tekið við því umönnunarhluterki sem áður var í höndum fjölskyldunnar. Með breyttri búsetu aldraðra og í hraða nútíma þjóðfélags þar sem fólk hefur yfirleitt mikið að gera er hætta á að tengsl aldraðra við aðra fjölskyldumeðlimi minnki. Fólk flytur auðveldlega á milli staða og því verður erfiðara að viðhalda tengslum innan fjölskyldna og hætta er á að aldraðir einangrist. Þessi þróun er slæm því sífellt fleiri rannsóknir sýna fram á mikilvægi þess að njóta stuðnings annarra og blanda geði við fólk, en það þykir lykilatriði í að bæta eða viðhalda virkri hugsun og heilsu (Landlæknisembættið, 2007). Þegar aldraðir einstaklingar eru í þeirri stöðu að þurfa að þiggja þjónustu frá hinu opinbera upplifa margir sig sem byrði á þjóðfélaginu en það getur valdið óöryggi og vanlíðan (Sigurveig H. Sigurðardóttir, 2006).

Nýleg finnsk rannsókn skoðaði samband einmanaleika og tíðni félagslegra samskipta við væntingar og ánægju þeirra öldruðu með samskipti sín við aðra. Þar kom fram að einangrun aldraðra á stofnun, það er samskipti þeirra við aðra og tíðni heimsókna var ekki í samræmi við upplifun þeirra á einmanaleika, heldur skiptu gæði samskiptanna við aðra meira máli. Gæðastundir, til dæmis með börnum skiptu því meira máli en stórt félagsnet eða margar heimsóknir. Sterk tengsl voru á milli væntinga þess aldraða til samskipta við aðra og upplifunar hans á einmanaleika, það er ef væntingum aldraðra var ekki fullnægt jókst upplifun þeirra á einmanaleika (Routasalo o.fl., 2006). Öfugt við þessa rannsókn sýndu niðurstöður rannsóknar Larson (2006) að það skipti máli hve oft börn og aldraðir höfðu samskipti, tengslin urðu meiri og betri og það mynduðust sterkari bond ef samskiptin voru mikil. Það sýndi sig að með samskiptum kynslóðanna upplifðu aldraðir aukna lífsfyllingu, minni einangrun og öðluðust aukið innsæi og skilning. Auk þess talaði Kaplan (2002) um að skipulögð samskipti hefðu góð sálræn áhrif á aldraða, þau skiluðu sér í betri heilsu, meira sjálfstrausti og minnkuðu líkur á þunglyndi.

Mikilvægi heimilisins

Ljóst er að ákveðin stofnanavæðing hefur orðið hér á landi hægt og bítandi en nú má sjá ákveðið afturhvarf til heimilisins þar sem lífsgæði fólks eru tekin til skoðunar í auknum mæli. Heimilið er gjarnan talið eitt gleggsta dæmið um það hvernig fólk myndar tilfinningaleg tengsl við staði og í mörgum tilvikum verður það að órjúfanlegum þætti í lífi þess. Þessu hefur verið lýst á þann hátt að einstaklingnum líði eins og heimilið sé hluti af honum og hann hluti af heimilinu. Tala má um eins konar „líkömun" þess að búa á tilteknu heimili (Manzo, 2005). Það að vera heima felur í sér þægindatilfinningu og að finnast maður geta gengið að hlutum vísum án þess að þurfa að hugsa sérstaklega um þá því eftir langa búsetu þekkja íbúar hvern krók og kima á heimilinu. Í skrifum fræðimanna er heimilið oft talið hafa jákvæða merkingu í huga fólks. Því er lýst sem einhvers konar griðastað þar sem fólk getur lifað frjálsu og óheftu lífi í skjóli þeirrar lagalegu og siðferðilegu verndar sem einkalífið nýtur. Margir fræðimenn á sviði öldrunar leggja áherslu á hin tilfinningalegu tengsl sem fólk myndar við heimili sín á langri ævi sem í flestum tilvikum hefur mótast af fjölbreyttum atburðum og samskiptum. Því er það sjónarmið algengt að mikilvægt sé fyrir fólk að fá tækifæri til að búa sem allra lengst á sínu upprunalega heimili (Kristín Björnsdóttir, 2008).

Samkvæmt rannsókn Sólborgar Sumarliðadóttur (2008) kemur fram að lífsánægja eldri borgara er meiri hjá þeim sem búa heima en þeim sem dvelja á stofnunum, einkum hjúkrunarheimilum. Á heimili er betri aðstaða til samskipta við fjölskyldu og vini sem skiptir miklu máli fyrir hinn aldraða. Á heimavelli er hann öruggur og þar ræður hann. Aðstæður allar og umhverfi er kunnuglegt, allar minningarnar, sem eru tengdar heimilinu, og félagsleg tengsl bæta öryggistilfinninguna.

Heimilið tengist einnig fjölskylduböndum og verður, í einhverjum tilvikum áframhaldandi áningar- og griðarstaður annarra fjölskyldumeðlima. Hugsanlegt er að forsendur samskiptanna breytist þegar foreldrar, afi eða amma fara inn á hjúkrunarheimili eða stofnun. Þeirra ævilangi vettvangur er þar með horfinn og þar af leiðandi vald þeirra á eigin heimili.

Spurningalistakönnunin ICEOLD var gerð árið 2008 með úrtaki 1189 einstaklinga 65 ára og eldri, búsettum á Íslandi. Svarhlutfallið var 65,8% og þar af voru 368 einstaklingar sem bjuggu einir. Helstu niðurstöður í rannsókninni voru þær að aldraðir einstaklinga sem búa einir fá mestu aðstoðina frá dætrum sem ekki búa á heimilinu. Minnst fengu þeir aðstoð frá sonum sínum sem ekki bjuggu á heimilinu. Aldraðir voru almennt ánægðir með lífið, sjaldan einmana og bjuggu við góða heilsu (ICEOLD,2008). Könnunin var, sem fyrr segir, gerð á einstaklingum sem héldu enn eigið heimili. Aldraðir inni á stofnunum voru ekki með í úrtakinu. Auk þess var rannsóknin megindleg og aðrir viðamiklir þættir ótilgreindir. Samkvæmt Hagstofu Íslands tilheyrðu 7,5% þjóðarinnar hópnum 65 ára og eldri árið 1950 og árið 2009 voru 11,6% þjóðarinnar í þessum hóp. Þessi þróun mun halda áfram og spár gera ráð fyrir því að árið 2050 verði 23,1% þjóðarinnar 65 ára og eldri. Vegna aukinnar ævilengdar verða mestar breytingar á hlutfalli mjög aldraðra, það er að segja 80 ára og eldri, og verða þeir 8,3% landsmanna árið 2050 (Hagstofa Íslands). Þann 1. janúar 2009 voru 12.749 einstaklingar 70 ára og eldri ýmist einhleypir, ekklar, ekkjur eða skildir að lögum; einhleypir voru 2288 manns (Hagstofa Íslands). Í stefnu íslenskra stjórnvalda er miðað að því að aldraðir dvelji sem lengst heima með tilheyrandi þjónustu heim ef þess gerist þörf. Með þessu er stuðlað að bættri og lengri búsetu aldraðra á eigin heimilum (Heilbrigðis- og Tryggingamálaráðuneytið, 2003).

Mikilvægi samskipta

Samskipti eru talin einn af áhrifaþáttum heilbrigðis og því mikilvægt fyrir alla að vera í góðum samskiptum þar sem þau geta bætt líðan fólks á hvaða aldri sem er. Maður er manns gaman, en tækni og hraði nútímans breyta samskiptaháttum og breikka bilið milli þeirra sem búa við mikið annríki og þeirra sem sitja hjá, einmana mitt í hringiðu annríkis og offramboðs (Ingibjörg Hjaltadóttir og Sigrún Gunnarsdóttir, 2002). Hins vegar skiptir innihald samskiptanna máli og þær væntingar sem gerðar eru til samskiptanna. Ólíkt getur verið að eiga samskipti við jafnaldra sína og svo þá sem mun yngri eru. Að sjálfsögðu fer þetta eftir persónuleika hvers og eins en fróðlegt er að horfa til umræddrar kynslóðahverfu og átta sig á því að til þess að eiga góð samskipti eins og Ingibjörg og Sigrún (2002) leggja áherslu á, þá þurfa viðmælendur þínir að hafa tilkall til umræðunnar, skynja talsmáta og hugsunarhátt á sama veg og þú sjálf/ur. Þetta næst ekki aðeins fram með jafnöldrum, en einnig sömu fjölskyldu sem deilir með þér minningum og tengingum sem ná dýpra en svo margt annað í daglegu lífi.

Daatlands og Herlofsson (2004) gerðu rannsókn á 75 ára og eldri einstaklingum, búsettum í Noregi, Englandi, Þýskalandi, Ísralel og á Spáni. Þetta er evrópsk rannsókn um fjölskyldutengsl. Rannsóknin er kölluð (OASIS) sem þýðir „elli og sjálfsforræði — þáttur þjónustukerfa og samstaða innan stórfjölskyldunnar". Í ljós kemur að 84% norskir aldraðir fá mestan stuðninginn frá fjölskyldunni og 71% þeirra frá vinum; 84% enskra einstaklinga fá mestan stuðninginn frá fjölskyldunni en 69% þeirra frá vinum. 65% þýskra einstaklinga fá mestan stuðning frá fjölskyldunni og 62% þeirra frá vinum; 86% spænskra einstaklinga fá mestan stuðningin frá fjölskyldunni og 66% þeirra frá vinum; 66% ísraelskra einstaklinga fá mestan stuðningin frá fjölskyldunni en 53% þeirra frá vinum (Daatland og Herlofsson, 2004). Ljóst er að fjölskyldan gegnir veigamiklu hlutverki í lífi aldraðra einstaklinga hjá Evrópuþjóðum og með aukinni fjarlægð vegna breyttrar búsetu og aðstæðna slitna mikilvæg tengsl sem stuðla að almennu heilbrigði, eins og rakið hefur verið hér að ofan.

Viðhorf aldraðra á Íslandi

Nokkrar kannanir hafa verið gerðar á viðhorfi aldraðra til hinna ýmsu mála er snerta þá. Reykjavíkurborg lét gera þrjár kannanir á viðhorfi og högum eldri borgara á árunum 1999, í desember árið 2006 til janúar 2007 og í nóvember 2007 til janúar 2008. Í könnuninni árið 1999 var aldurshópurinn 65 til 80 ára, í könnuninni í desember árið 2006 til janúar 2007 var aldurshópurinn 67 til 80 ára og í könnuninni í nóvember árið 2007 til janúar 2008 var aldurshópurinn 80 ára og eldri (Velferðarsvið Reykjavíkur). Þrjár sjálfstæðar kannanir voru gerðar á vegum Reykjavíkurborgar á tímabilinu 1999 — 2007: Það sem vekur athygli í þessum þremur könnunum er að einbúandi aldraðir eru frá tæplega 32% upp í tæp 58% og frá 68,3% upp í 78,2% svarenda eru aldrei einmana þrátt fyrir fjölda þeirra sem búa einir. Það er umhugsunarefni hvað einsetufólk er sjaldan einmana. Það má jafnvel gefa sér að sjálfstæð búseta hafi í för með sér vald á aðstæðum og eðlilegra flæði og umgang nærfjölskyldunnar.

(þesi grein er orðin átta ára gömul og verulega hefur verið þrengt að öldruðum hér heima á Íslandi á þessum tíma og því þyrfi að koma til nýar rannsóknir á högum þeirra).


Vinun ehf

  • Silungakvísl 14
  • 110 Reykjavík
  • Sími 578-9800 & 820-5768

Samfélagsmiðlar

Hafa samband

578-9800
vinun@vinun.is