Góð öndun er forsenda andlegs jafnvægis og styrkir ónæmiskerfið
Góð öndun er forsenda andlegs jafnvægis og styrkir ónæmiskerfið
Við örfum starfsemi meltingarfæranna og styrkjum taugakerfið með því að þjálfa okkur upp í að anda rétt. Rétt öndun er að anda með nefinu og nota heildaröndun. Með því að þjálfa upp öndunina í heildaröndun bætum við svefn, losum um kvíða og verðum orkumeiri. Hér á eftir útskýri ég hvað er átt við með heildaröndun og hvernig á að ná tökum á henni. Auk þess sem ég set inn reglulega nýjar æfingar til að þjálfa sig upp í að byggja upp góða og djúpa öndun.
Heildaröndun
Standið eða setjið bein og andið hægt og rólega að ykkur gegnum nefið og fyllið lungun af súrefni. Gott er að halda við kviðinn og finna öndunina fara vel niður í kviðinn og færa svo loftið upp í neðri hluta lungnanna og síðan alveg upp í efsta hluta lungnanna, lyfta um leið örlítið öxlum. Halda smá stund og anda rólega frá sér með því að draga kviðinn örlítið inn og upp á við og tæmið lungun.
Það má líka telja í huganum upp í átta og halda upp í átta og anda rólega frá sér og telja upp að tíu. Við útöndun að draga örlítið kviðinn inn og hjálpa þannig til við að tæma lungun.
Fyrir marga gæti verið betra að byrja á einfaldari öndunaræfingum og vinna sig svo upp í, að vera meðvitaðri um öndunina og ná dýpri öndun.
Hér fylgir með góð öndunaræfing til að gera af og til yfir daginn.
Öndun 1-2-3-4 og halda 1-2
- Byrjaðu á því að anda kröftuglega að þér og frá í gegnum nefið
- Byrjaðu svo á því að anda að þér rólega inn um nefið og á meðan þú dregur að þér súrefni að telja upp að fjórum 1-2-3-4
- Haltu niðri í þér andanum á meðan þú telur upp að fjórum 1-2-3-4
- Andaðu út í rólegheitum meðan þú telur upp að sex 1-2-3-4-5-6
- Haltu þegar þú ert búin að tæma allt loft meðan þú telur upp að tveim 1-2
- Byrjaðu svo aftur ....
- Gerðu æfinguna a.m.k. 5 í einu af og til yfir daginn.
Þegar þú ert búinn að ná góðum tökum á þessari æfingu getur þú lengt tímann og talið upp í sex, halda sex og frá á átta.