Hugleiðsluæfing - núvitund
Sittu þægilega, eða í þeirri stöðu sem þér líður vel í með hrygginn beinan, þannig að þú náir að slaka vel á.
Andaðu djúpt og vel inn í líkamann, með opin eða lokuð augu. Andaðu áreynslulaust að þér og frá og leyfðu líkama þínum að losa um spennu og slaka á.
Meðan þú andar eðlilega að þér og frá, skaltu leyfa hugsunum og hljóðum í umhverfinu að vera og leyfa þér bara að einbeita þér að önduninni án þess að vera að reyna að bægja frá hugsunum eða umhverfishljóðum.
Hugsaðu um öndunina og beindu athyglinni að loftinu sem þú dregur að þér og önduninni sem fer frá þér. Finndu hvernig brjóstið hreyfist við öndunina og kviðurinn, veittu athygli hvernig líkami þinn hreyfir sig við inn og útöndun. Finndu þessa hringrás sem öndunin er.
Það er eðlilegt að hugurinn flögri og hugsanir komi og fari. Þegar þú finnur að hugurinn vill fara að festast við einhverja ákveðna hugsun eða málefni eða tilfinningu, dragðu þá einbeitinguna að önduninni aftur.
Ef þér reynist erfitt að einbeita þér að önduninni þá er í góðu lagi að telja frá 10 og niður. Telja við hverja innöndun og einbeita sér um leið að önduninni án þess að stjórna henni en vera meðvitaður um hvernig öndunin er, hvað þú ert að upplifa í líkama þínum án þess að beina athyglinni að því. Það er að vera meðvitaður án þess að hafa einbeitinguna á líkamanum og leyfa þér að slaka á við hverja útöndun, finna hvernig þú gefur eftir og slakar á.
Það er eðlilegt að upp í hugann komi málefni sem maður er að vinna við, óleyst verkefni, langanir og hugsanir um allt og ekkert. Leyfðu því bara að vera án þess að festa athyglinni á það.
Þegar þú ert tilbúin getur þú endað hugleiðsluna, leyfðu þér þegar þú ert að enda að vera vakandi gagnvart líðan þinni og upplifun.
Hugleiðsla hjálpar manni að slaka á, gefa eftir og leyfa sér að vera í núinu. Það að upplifa að það eru ótal verkefni, ótal mál, endalausar hugsanir sem fljóta um hugann, frelsar mann einhvern vegin og hjálpar manni að leysa úr þeim með því bara að leyfa þeim að vera og gera ekkert í þeim þá stundina. Það verður til þess að það verður auðveldara að vinna úr þeim síðar, leysa mál og klára verkefni.
Stundum er gott að bara að vera, til að vera til og þurfa ekki að vera að fást við eitthvað sérstakt, heldur leyfa sér að staldra við, slaka á og leyfa öllu öðru að þjóta fram hjá án þess að þurfa að taka þátt í því. Bara það að leyfa sér það, að gefa sér tíma, slaka á og einbeita sér að engu öðru en önduninni og sinni eigin upplifun þ.e. hvernig líkaminn bregst við önduninni, staðsetjum við okkur algjörlega í núinu, í augnablikinu og annað skiptir ekki máli þá stundina.
Aðeins meiri skýring
Hugleiðsla er ekki að stjórna huganum, stoppa hugsanir heldur stíga til baka og leyfa hugsunum að fljóta og hafa sinn gang og vera vakandi gagnvart þeim án þess að stjórna þeim og stýra.
Þegar lífið fer að vera frekar stressandi og aðstæður þannig að þér finnst þú ekki hafa stjórn á þeim, þá er gott að setjast niður og eiga stund með sjálfum sér í núinu. Staðsetja sig í núinu með því að slaka á og hugsa um öndunina og hvernig öndunin færir þér ró og leyfa hugsunum að koma og fara.
Hugleiða er að sleppa, sama hvað kemur upp, hvaða tilfinning, minning sem kemur, stígðu til baka, hlutir eru ekki alltaf eins og þeir virðast. Besta leiðin til að átta sig á því og ná stjórn er að leyfa sér að hafa enga stjórn, heldur bara vera til, að vera og hugleiða á öndunina og leyfa örðu að líða hjá, án áreynslu.
Við tökum inn alls konar tilfinningar óafvitandi og gerum þær að okkar, setjum þær inn í líkama okkar og þær eru allt í einu farnar að stýra líðan okkar. Sem dæmi; ef hugsun um kvíða kemur upp í huga okkar, þá er tilhneigingin í stað þess að leyfa honum að fara, veita honum leið fram hjá okkur, einbeitum við okkur að honum ”ó ” er ég kvíðin” og þannig staðsetjum við hann inn í líkama okkar. Kvíðin sem poppaði upp er þannig farin að hafa áhrif á líðan okkar bæði andlega og líkamlega og stýra upplifun okkar hvernig við tökumst á við dagleg verkefni.
Þessu getum við breytt og besta leiðin er að leyfa þessum tilfinningum að koma og fara án þess að veita þeim sérstaklega athygli og þannig getum við breytt því hvernig við upplifum hlutina.
Við getum gert okkur frjáls frá tilfinningalegum lægðum sem æða inn í líf okkar með því að veita þeim ekki athygli. Það er eðlilegt að upplifa tilfinningar en við þurfum ekki að einbeita okkur að þeim eða gera þær að okkar. Því með því að einbeita sér að kvíða, eða pirringi erum við farin að láta þessar tilfinningar stjórna ákvörðunum okkar og hvernig við tökumst á við þau verkefni sem við erum að fást við hverju sinni.
Við þurfum að vera vakandi gagnvart því að hleypa fram hjá okkur tilfinningum sem við höfum enga þörf með og það gerum við með því að staldra ekki við þær, þ.e. hugleiða ekki á þær heldur anda okkur í gegnum þær með því að nota jákvæðar hugsanir, jákvæðar staðhæfingar, Jákvæðar ímyndir.